Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 363 . mál.


Nd.

623. Frumvarp til laga



um Listskreytingasjóð ríkisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    Listskreytingasjóður ríkisins hefur það markmið að fegra opinberar byggingar og umhverfi þeirra með listaverkum og stuðla þannig að listsköpun í landinu.
    Sjóðurinn hefur sjálfstæðan fjárhag og eigin stjórn sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum. Málefni sjóðsins heyra undir menntamálaráðuneytið.

2. gr.

    Opinberar byggingar merkja í lögum þessum allar byggingar sem ríkissjóður fjármagnar að nokkru eða öllu leyti. Undanþegnar eru þó byggingar sem reistar eru til bráðabirgða, byggingar sem standa fjarri alfaraleið, skemmubyggingar og aðrar sambærilegar byggingar. Að jafnaði skal miða við að bygging, sem listskreyta á, sé að einhverju eða öllu leyti í eigu ríkisins.
    Heimilt er að veita úr Listskreytingasjóði styrki vegna listskreytingar bygginga sem reistar eru á vegum ríkisstofnana er hafa sjálfstæðan fjárhag og eru því ekki háðar beinni fjárveitingarákvörðun Alþingis um byggingarframkvæmdir. Heimilt skal einnig að veita úr sjóðnum styrki vegna listaverka sem komið er fyrir á almannafæri á vegum ríkis eða sveitarfélaga þótt ekki sé í beinum tengslum við opinberar byggingar. Nánari ákvæði um styrkveitingar samkvæmt þessari málsgrein skal setja í reglugerð.

3. gr.

    Tekjur sjóðsins eru:
1.    Árlegt framlag ríkisins.
    Framlagið nemur 1% álagi á samanlagðar fjárveitingar ríkissjóðs í A-hluta fjárlaga til þeirra bygginga, sem ríkissjóður stendur að einn eða með öðrum (sveitarfélögum o.s.frv.), sbr. 4. gr. Til byggingar telst föst innrétting.
2.    Vaxtatekjur.
3.    Aðrar tekjur.

4. gr.


    Framlag ríkissjóðs skv. 1. tölul. 3. gr. skal vera sérliður á fjárlögum og ákvarðast í samráði við byggingardeild menntamálaráðuneytisins og Fjárlaga- og hagsýslustofnun.
    Greiða skal til Listskreytingasjóðs eigi minna en 1 / 12 árlegs framlags á mánuði, hvert fjárlagaár, og skal uppgjöri ríkisins við sjóðinn lokið fyrir 10. desember ár hvert.

5. gr.

    Stjórn Listskreytingasjóðs ríkisins skal skipuð af menntamálaráðherra, þannig: Tveir menn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra myndlistarmanna, einn samkvæmt tilnefningu Arkitektafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og formaður, skipaður án tilnefningar.
    Stjórnina skal skipa til tveggja ára í senn.
    Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Afl atkvæða ræður úrslitum mála í sjóðsstjórn. Halda skal gerðabók um stjórnarfundi.
    Menntamálaráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna sem greiðist úr sjóðnum ásamt öðrum kostnaði við starfsemi hans.

6. gr.

    Þegar ákveðið hefur verið að reisa mannvirki, sem lög þessi taka til, skulu arkitekt mannvirkisins og byggingarnefnd, sem hlut á að máli, hafa samband við stjórn Listskreytingasjóðs þannig að byggingin verði frá öndverðu hönnuð með þær listskreytingar í huga sem ráðlegar teljast. Í kostnaðaráætlun um slíkar byggingar skal jafnan gert ráð fyrir listskreytingu með hliðsjón af lögunum.

7. gr.

    Stefnt skal að því að um meiri háttar verkefni á sviði listskreytinga fari fram opinber samkeppni í samræmi við reglur Sambands íslenskra myndlistarmanna. Heimilt skal sjóðsstjórn að ákveða að samkeppni um listskreytingu skuli opin listamönnum á Norðurlöndum, svo og í öðrum þeim löndum þar sem íslenskir myndlistarmenn njóta sömu réttinda.
    Með listskreytingu er átt við hvers konar fasta og lausa listmuni, svo sem veggskreytingar innan húss og utan, höggmyndir, málverk, myndvefnað og hvers konar listræna fegrun.
    Skal leitast við að dreifa verkefnum milli listgreina, þannig að í hverri byggingu séu fleiri en ein tegund listskreytinga.

8. gr.

    Sjóðsstjórnin skal samþykkja fyrirhugaða listskreytingu þeirra mannvirkja sem lög þessi taka til og hvernig staðið skuli að framkvæmdum í samvinnu við arkitekt byggingar og byggingarnefnd hennar. Stjórnin getur kvatt sérfróða menn til aðstoðar við einstök verkefni.

9. gr.

    Heimilt er, eftir því sem fjárhagur sjóðsins leyfir, að verja úr honum fé til listskreytingar bygginga sem þegar eru fullbyggðar og skal þá hafa samráð við arkitekt byggingarinnar ef þess er kostur.

10. gr.

    Verja má úr Listskreytingasjóði til listskreytingar bygginga, sem lög þessi ná til, fjárhæð sem svarar til 1% álags á framlög ríkisins til hlutaðeigandi byggingar, miðað við verðlag á þeim tíma er styrkveiting er ákveðin. Heimilt er þó sjóðsstjórn að verja hærri fjárhæð en þessu svarar ef sérstakar ástæður þykja til og fjárhagur sjóðsins leyfir.
    Þegar um er að ræða byggingar sem sveitarfélög, eitt eða fleiri, standa að ásamt ríkinu er stjórn Listskreytingasjóðs heimilt að binda framlag úr sjóðnum til listskreytingar skilyrði um mótframlag af hálfu hlutaðeigandi sveitarfélaga. Sama gildir um framlög vegna bygginga á vegum ríkisstofnana sem hafa sjálfstæðan fjárhag, sbr. 2. mgr. 2. gr.
    Stjórn Listskreytingasjóðs er heimilt að veita styrk úr sjóðnum vegna kostnaðar við undirbúning umsóknar um framlag til listskreytingar, svo sem samkeppni eða gerð viðamikilla líkana.
    Um heimild sjóðsstjórnar til að endurskoða fjárhæð framlaga vegna verðbreytinga, sem verða frá því að framlag er ákveðið og þar til það kemur til greiðslu, svo og um afturköllun framlaga sem ekki eru nýtt innan tiltekinna tímamarka, má ákveða í reglugerð.

11. gr.

    Stjórn Listskreytingasjóðs getur hvort heldur óskað eftir að gerð séu ný listaverk eða keypt fullgerð listaverk eða listaverk sem unnið er að. Heimilt er að kaupa listaverk frá Norðurlöndum og öðrum löndum, enda séu gagnkvæm réttindi í samskiptum milli landanna á þessu sviði.

12. gr.

    Nú hefur verið veitt framlag úr Listskreytingasjóði til listskreytingar í eða við tiltekna byggingu. Skal þá óheimilt að flytja listaverk sem framlagið miðast við varanlega úr byggingunni eða frá henni, nema með samþykki stjórnar sjóðsins á grundvelli nýrrar umsóknar.
    Óheimilt er að selja listaverk, sem notið hefur framlags úr Listskreytingasjóði, nema með samþykki sjóðsstjórnar, enda sé þá samið um endurgreiðslu framlagsins í sjóðinn.
    Setja skal í reglugerð ákvæði um merkingar listskreytinga sem sjóðurinn veitir framlag til.

13. gr.

    Semja skal við bankastofnun um að annast fjárvörslu Listskreytingasjóðs og skal þess gætt að hann njóti jafnan bestu vaxtakjara. Heimilt skal stjórn sjóðsins, með samþykki menntamálaráðuneytisins, að semja við félagasamtök sem aðild eiga að sjóðnum um að annast rekstur hans að öðru leyti.
    Reikningsár sjóðsins er almanaksárið og skulu rekstrar- og efnahagsreikningar endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun árlega og birtir í Stjórnartíðindum.

14. gr.

    Menntamálaráðuneytið setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

15. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 34/1982, um Listskreytingasjóð ríkisins.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 34/1982, um Listskreytingasjóð ríkisins, segir: „Lög þessi skulu tekin til endurskoðunar að fimm árum liðnum með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af því fyrirkomulagi sem hér er gert ráð fyrir um listskreytingu opinberra bygginga.“ Með bréfi dags. 20. mars 1987 fól menntamálaráðuneytið stjórn Listskreytingasjóðs ríkisins að vinna að endurskoðun laganna í samræmi við framangreint ákvæði. Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, er niðurstaða þeirrar vinnu.
    Listskreytingasjóður ríkisins hefur nú starfað í rúmlega sjö ár. Sjóðsstjórn samkvæmt nýsettum lögum var skipuð 31. ágúst 1982 og hélt fyrsta fund sinn 2. september það ár, en fé var fyrst veitt til sjóðsins í fjárlögum 1983. Fyrstu missirin var straumur umsókna um framlög úr sjóðnum fremur hægur, en hefur síðan farið mjög vaxandi. Skrá um framlög, sem ákveðin hafa verið fram til 31. desember 1989, er birt í fylgiskjali.
    Enginn vafi leikur á því í ljósi fenginnar reynslu að sjóður af þessu tagi hefur miklu hlutverki að gegna. Fyrirsjáanlegt er einnig að sá fjármagnsstakkur, sem sjóðnum var skorinn í lögunum frá 1982, er síst of rúmt sniðinn. Á því hefur hins vegar orðið verulegur misbrestur að ákvæðum laganna um fjárveitingar til sjóðsins hafi verið framfylgt. Samkvæmt 3. gr. laganna skal árlegt framlag ríkisins til Listskreytingasjóðs nema 1% álagi á samanlagðar fjárveitingar ríkissjóðs í A-hluta fjárlaga til þeirra bygginga sem ríkissjóður stendur að einn eða með öðrum. Samkvæmt yfirliti, sem byggingardeild menntamálaráðuneytisins tók saman um framlög til bygginga í A-hluta fjárlaga, „þ.e. nýbyggingar og endurbætur, en án tækja og búnaðar þar sem þetta er aðgreinanlegt“, hvert áranna 1983–1989, hefðu fjárveitingar til Listskreytingasjóðs þessi ár átt að vera því sem næst sem hér segir, miðað við 1%-regluna:
     1983: 4.964 þús. kr.
     1984: 6.054 þús. kr.
     1985: 7.647 þús. kr.
     1986: 8.555 þús. kr.
     1987: 13.519 þús. kr.
     1988: 19.427 þús. kr.
     1989: 25.547 þús. kr.
    Í raun voru framlög til sjóðsins í fjárlögum þessi:
     1983: 2.000 þús. kr.
     1984: 4.000 þús. kr.
     1985: 3.700 þús. kr.
     1986: 4.000 þús. kr.
     1987: 4.000 þús. kr.
     1988: 5.000 þús. kr.
     1989: 6.000 þús. kr.
    Þótt nokkurt matsatriði kunni að vera í sumum tilvikum hvaða stofnkostnaðarfjárveitingar beri lögum samkvæmt að leggja til grundvallar ríkisframlagi til Listskreytingasjóðs er ljóst af þessum tölum að mjög hefur skort á fulla framkvæmd laganna í þessu efni. Með hliðsjón af þeim verkefnum, sem fyrir liggja, blasir það við að í óefni stefnir um getu sjóðsins til að sinna því hlutverki sem honum er ætlað.
    Helstu breytingar, sem í frumvarpinu felast miðað við gildandi lög, eru þessar:
1.     Nokkur rýmkun er gerð á verksviði sjóðsins.
2.     Skýr heimild er veitt til að binda framlag eða styrk úr sjóðnum skilyrði um mótframlag frá eiganda mannvirkis í ákveðnum tilvikum.
3.     Sett eru ákvæði er varða meðferð listskreytinga sem sjóðurinn veitir framlag til.
    Um nánari greinargerð er vísað til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér ræðir um markmið Listskreytingasjóðs ríkisins. Bætt er í greinina tveimur atriðum: Annars vegar kemur fram að starfsemi sjóðsins miði ekki einungis að fegrun opinberra bygginga heldur og umhverfis þeirra. Þetta er gert til skýringar og í samræmi við framkvæmd. Eftir sem áður er miðað við að listaverkið sé þáttur í þeirri heildarmynd sem bygging og nánasta umhverfi hennar skapa. Hin viðbótin lýtur að því að leggja áherslu á þann þátt í markmiði Listskreytingasjóðs sem að listamönnum snýr, þ.e. að efla starfsgrundvöll þeirra og þar með listsköpun í landinu. Ekki fer á milli mála, að þetta hefur verið haft í huga við setningu laganna á sínum tíma og þykir eðlilegt að það komi fram í lögunum sjálfum.

Um 2. gr.


    Fyrri málsgrein þessarar greinar er óbreytt frá gildandi lögum, nema hvað bætt er við hana ákvæði um að miðað skuli við það að jafnaði til að bygging teljist falla undir skilgreiningu þá, sem í málsgreininni felst, að hús sé að einhverju eða öllu leyti í eigu ríkisins. Með þessu er stefnt að því að afmarka skyldur Listskreytingasjóðs gagnvart byggingum sem ríkið kann að styrkja án nokkurrar eignaraðildar.
    Í síðari málsgreininni felst sú breyting í fyrsta lagi að heimild til að veita úr sjóðnum fé til listskreytingar bygginga á vegum ríkisstofnana sem hafa sjálfstæðan fjárhag verður ekki lengur háð sérstakri ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að heimilt verði að veita úr sjóðnum styrki vegna listaverka sem komið er fyrir á almannafæri á vegum ríkis eða sveitarfélaga án þess að þau tengist beint opinberum byggingum. Lögð skal áhersla á að hér er einungis um að ræða heimild til styrkveitingar sem sjóðsstjórn yrði að meta forsendur fyrir hverju sinni, m.a. með hliðsjón af fjárhag sjóðsins, þar sem viðfangsefni af þessu tagi falla utan við meginverksvið sjóðsins, sbr. og athugasemd við 10. gr. Eðlilegt þykir að nánari ákvæði um slíkar styrkveitingar verði sett í reglugerð.

Um 3. gr.


    Greinin er að mestu óbreytt frá gildandi lögum. Ekki er gerð tillaga um hækkun á þeim hundraðshluta stofnkostnaðarfjárveitinga sem árlegt framlag ríkisins til Listskreytingasjóðs á að miðast við enda þótt auðsætt sé að ærin not væru fyrir efldan tekjustofn og frumvarpið geri raunar ráð fyrir nokkurri víkkun á verksviði Listskreytingasjóðs. Því brýnna er að sjóðurinn njóti til fulls þeirra tekna sem honum eru þegar ætlaðar að lögum.
    Við 1. tölul. er í skýringar skyni bætt ákvæði um að til byggingar teljist föst innrétting þegar fjárveitingar til bygginga eru metnar til að ákvarða viðmiðun árlegs ríkisframlags til sjóðsins.

Um 4. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum.

Um 5. gr.


    Í þessari grein felst sú breyting ein að sem tilnefningaraðili í sambandi við skipun sjóðsstjórnarinnar kemur nú Samband íslenskra myndlistarmanna í stað Bandalags íslenskra listamanna.

Um 6. gr.


    Greinin er óbreytt frá gildandi lögum, nema bætt er við ákvæði um að í kostnaðaráætlun um byggingar, sem lögin taka til, skuli jafnan gert ráð fyrir listskreytingu með hliðsjón af lögunum. Með þessu er lögð enn frekari áhersla á að líta beri á listskreytingu sem sjálfsagðan þátt í hverri nýbyggingarframkvæmd sem ríkið stendur að.

Um 7. gr.


    Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að menntamálaráðuneytið setji, að fengnum tillögum tiltekinna aðila, reglur um opinbera samkeppni vegna meiri háttar listskreytingarverkefna. Af þessu hefur ekki orðið, en á vegum Sambands íslenskra myndlistarmanna hafa verið samdar reglur um listaverkasamkeppni, með hliðsjón af sambærilegum reglum annars staðar á Norðurlöndunum. Hér er gert ráð fyrir að miðað verði við þessar reglur þegar efnt er til samkeppni um listskreytingarverkefni á grundvelli laganna. Þá er og ákvæði um hugsanlega þátttöku erlendra listamanna í slíkri samkeppni rýmkað á þá lund að það taki ekki einungis til Norðurlanda heldur og annarra landa þar sem íslenskir myndlistarmenn njóta sömu réttinda.
    Í stað orðsins „veggábreiður“ í 2. mgr. kemur orðið: myndvefnaður.

Um 8. gr.


    Efnislega er greinin óbreytt en orðalagi vikið lítillega við.

Um 9. gr.


    Með breyttu orðalagi í upphafi greinarinnar er dregið nokkuð úr áherslu að því er varðar framlög til listskreytingar í byggingum sem þegar eru fullbyggðar. Þótt engri loku sé skotið fyrir að sjóðurinn styrki verkefni af því tagi, er eðlilegt að telja það meginhlutverk hans að stuðla að listskreytingu nýrra bygginga, sbr. 6. gr.

Um 10. gr.


    Í 1. mgr. eru sameinuð ákvæði 1. og 2. mgr. 10. gr. gildandi laga með tveimur efnisbreytingum. Meginregla um hámarksfjárhæð framlags úr sjóðnum til listskreytingar verður sem fyrr að það svari til 1% álags á framlög ríkisins til hlutaðeigandi byggingar. Heimilt verður, eins og verið hefur, að veita hærri fjárhæð ef sérstakar ástæður þykja til og fjárhagur sjóðsins leyfir, en ekki er lengur áskilin heimild menntamálaráðherra til slíkra frávika frá meginreglunni, heldur er ákvörðunin lögð á vald sjóðsstjórnar. Þá er tekið skýrt fram að framreikna megi viðmiðunarkostnað til verðlags á þeim tíma er styrkveiting er ákveðin, enda oft óhjákvæmilegt þegar um fullgerðar byggingar er að ræða. Meginreglan um 1% sem hámarksframlag, miðað við kostnaðarhluta ríkisins, setur sjóðsstjórn vissulega harla þröngar skorður í mörgum tilvikum. Ástæðan til að reglunni er haldið er að sjálfsögðu samhengi hennar við tekjustofn sjóðsins, sbr. 3. gr.
    Önnur málsgrein er ný. Þar er stjórn Listskreytingasjóðs heimilað að gera það að skilyrði framlags úr sjóðnum til listskreytingar í byggingum sem sveitarfélög standa að ásamt ríkinu að á móti komi framlög frá hlutaðeigandi sveitarfélögum. Telja verður eðlilegt að sveitarfélag, sem reisir og á byggingu á móti ríkinu, taki að öðru jöfnu þátt í kostnaði vegna listskreytingar eins og annarra þátta byggingarframkvæmdanna. Í stað þess að gera ráð fyrir lögskipuðum framlögum sveitarfélaga til sjóðsins er búið í haginn fyrir kostnaðarþátttöku þeirra með þessu ákvæði. Minna má á að Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir að lögum einn fulltrúa í stjórn Listskreytingasjóðs og er það með sínum hætti vísbending um að eðlilegt þyki að sveitarfélögin láti verkefni sjóðsins til sín taka.
    Heimildin til að áskilja mótframlag á samkvæmt frumvarpinu einnig að gilda gagnvart ríkisstofnunum sem hafa sjálfstæðan fjárhag. Gilda um það að mestu hliðstæð rök og lýst var hér að framan um byggingar með aðild sveitarfélaga.
    Í 3. mgr. er það nýmæli að sjóðsstjórn sé heimilt að veita styrk vegna kostnaðar við undirbúning umsóknar um framlag til listskreytingar, svo sem samkeppni, sbr. 7. gr. eða gerð viðamikilla líkana. Slíkur styrkur mundi þá ekki teljast með við útreikning hámarksframlags skv. 1. mgr. 10. gr.
    Ákvæði 4. mgr. er einnig nýmæli, en þar er gert ráð fyrir að endurskoða megi fjárhæð framlags vegna verðbreytinga, svo og setja tímamörk um nýtingu framlags hvort tveggja samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

Um 11. gr.


    Efnislega er greinin óbreytt frá gildandi lögum, nema hvað heimild til að kaupa listaverk frá Norðurlöndum, að fullnægðum tilteknum skilyrðum, er einnig látin taka til annarra landa með sama áskilnaði um gagnkvæm réttindi.

Um 12. gr.


    Þessi grein er ný og miðar að því að tryggja að með listaverk, sem Listskreytingasjóður hefur kostað að einhverju eða öllu leyti, verði farið í samræmi við tilgang sjóðsins.

Um 13. gr.


    Greinin svarar til 12. gr. í gildandi lögum. Niður er fellt ákvæði um að semja skuli við bankastofnun um að annast reikningshald Listskreytingasjóðs, enda hefur það reynst örðugt í framkvæmd. Hins vegar er gert ráð fyrir að sjóðsstjórn sé heimilt, með samþykki menntamálaráðuneytisins, að semja við félagasamtök sem tilnefna fulltrúa í stjórnina, sbr. 5. gr., um að annast almennan rekstur hans.

Um 14. gr.


    Hér er mælt fyrir um að setja skuli í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna, enda gert ráð fyrir því í sambandi við nokkrar einstakar greinar frumvarpsins. Í gildandi lögum er um heimild að ræða.

Um 15. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


(Texti er ekki til tölvutækur.)